Garður: Væringar í bæjarpólitíkinni
Líklegt má telja að sjálfstæðismenn í Garði bjóði fram sameiginlegan lista í næstu sveitarstjórnarkosninum. Á nýlegum aðalfundi Sjálfstæðisfélagsins í Garði var skorað á sjálfstæðismenn þar í bæ að sameinast í framboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Tillaga þess efnis var samþykkt samhljóða.
Sameiginlegur listi sjálfstæðismanna og óháðra, undir merkjum H-lista, hafði bæjarstjórnarmeirihluta í áratugi uns upp úr slitnaði vegna harðvítugra deilna fyrir rúmum áratug síðan. Úr klofningsframboði H-listans varð til F-listi, sem hélt meirihluta þar til í síðustu kosningum þegar N-listinn varð sigurvegari. Fimm af sjö bæjarfulltrúum er flokksbundnir sjálfstæðismenn, tveir af fjórum í núverandi meirihluta og þrír í minnihluta. Þetta fólk mun allt hafa verið á umræddum fundi, samkvæmt því sem Morgunblaðið greinir frá í morgun. Þar kemur einnig fram að tillagan hafi verið samþykkt samhljóða. Morgunblaðið hefur eftir fyrrum formanni Sjálfstæðisfélagsins að hann eigi ekki von á öðru en núverandi meirihluti starfi út kjörtímabilið.
Loftmyndir úr Garði. Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson