Garður: Standa vörð um grunnþjónustu við íbúa
Sveitarfélagið Garður ætlar að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og að jafnframt verði mögulegt að viðhalda sérstakri viðbótarþjónustu við foreldra ungra barna. Þetta kom fram við síðari umræðu um þriggja ára áætlun Sveitarfélagsins Garðs, sem samþykkt var með atkvæðum meirihlutans fyrir helgi.
Í greinargerð bæjarstjóra segir að í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir því að sjáist fyrir endan á óvissu í atvinnumálum og uppbyggingu atvinnutækifæra á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir tekjum af uppbyggingu álvers í Garði og skatttekjur aukist um 70 millj. kr. á ári vegna aukinna umsvifa í tengslum við uppbygginguna. Þá er gert ráð fyrir 1,5% íbúafjölgun. Gert er ráð fyrir lækkun jöfnunarsjóðsframlaga vegna aukningar á öðrum skatttekjum. Almennar hækkanir annarra tekna eru áætlaðar 2% á ári. Kostnaðarhækkanir eru áætlaðar á tímabilinu um 2% á ári. Gert er ráð fyrir aukningu við kostnað á leikskóla á árinu 2013 vegna fjölgunar deilda í leikskólanum.
Þá kemur fram að raunvextir Framtíðarsjóðs eru áætlaðir um 4,5% eða u.þ.b. 62 milljónir á ári.
Fjárfestingar ársins 2011 eru að fjárhæð 79,9 millj. kr., árið 2012 verða þær 77 milljónir króna og 71,5 milljónir króna árið 2013.