Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Garður: Segja meirihlutann kasta steinum úr glerhúsi
Fimmtudagur 7. apríl 2011 kl. 12:29

Garður: Segja meirihlutann kasta steinum úr glerhúsi

Bæjarfulltrúar N-listans í Garði segja fjármálastjórn í Garði vera óvandaða. Síðari umræða um ársreikning 2010 fór fram á bæjarstjórnarfundi í Garðinum í gær þar sem bókanir voru nokkrar og reynt að finna sökudólga.


„N listinn lýsir áhyggjum sínum vegna þeirrar slæmu rekstrarniðurstöðu sem ársreikningar 2010 sýna. Stöðu sem mögulegt hefði verið að afstýra ef gripið hefði verið í taumana um leið og vísbendingar komu fram um að forsendur fjárhagsáætlunar héldu ekki. Óvönduð fjármálastjórn virðist vera helsta ástæða þess að illa fór.
N listinn hefur ítrekað kallað eftir greiningu á fjármálastjórn og fjármálum henni tengdri áranna 2009 og 2010. D-listinn bókaði á síðasta bæjarstjórnarfundi að frávikagreining áranna 2009 og 2010 mundi liggja fyrir við síðari umræðu ársreikninga 2010. Við það var ekki staðið.
N listinn gerir þá skýlausu kröfu að frávikagreiningin liggi fyrir 10 dögum fyrir næsta bæjarstjórnarfund og verði á dagskrá þess fundar,“ segir í bókun N-listans á fundinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


D-listinn tók fundarhlé en lagði síðan fram neðangreinda bókun:
„Vegna bókunar N-lista vill D-listinn taka eftirfarandi fram; Helsta ástæða slæmrar rekstrarniðurstöðu ársins 2010 má rekja til lækkunar á fjármunatekjum eða úr 134. milljónir í áætlun ársins en varð rúmar 3 milljónir.
Þess má einnig geta að fjármálastjórn var 6 mánuði undir stjórn N-lista auk þess sem N-listinn bar alla ábyrgð á fjárhagsáætlun ársins 2010.
Frá því að D-listinn tók við stjórn hefur verið unnið markvisst að umbreytingum á rekstri bæjarfélagsins og fjármálastjórn hans.
Varðandi frávikagreiningar sem óskað var eftir tafðist sú vinna á síðustu vikum vegna ófyrirséðra aðstæðna. Frávikagreiningin verður lögð fyrir í bæjarráði þegar hún verður tilbúin“.


N-listinn svaraði bókun D-listans um hæl:
„Vegna bókunar D-lista vill N-listinn benda á að allt árið 2010 starfaði sami bæjarstjórinn og sami meirihluti bæjarráðs. Samkvæmt bæjarmálasamþykkt fer bæjarráð og bæjarstjóri með fjármálastjórn bæjarins. D-listinn kastar því steinum úr glerhúsi“.

Ársreikningurinn var samþykktur með fjórum atkvæðum D-lista.