Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garður: Ókeypis skólamáltíðir ekki forgangsverkefni
Fimmtudagur 7. september 2006 kl. 11:02

Garður: Ókeypis skólamáltíðir ekki forgangsverkefni

N-listinn í Garði, sem fer með meirihlutann í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs, telur að það að bjóða upp á fríar máltíðir í grunnskóla sé ekki forgangsverkefni í fræðslu- og uppeldismálum bæjarins. Hins vegar sé mikilvægt að börnum gefist kostur á hollum og góðum mat í hádegishléi á viðráðanlegu verði.  Niðurgreiðsla bæjarins við hverja máltíð um rúman helming raunkostnaðar kemur vel til móts við það markmið.

Tekist var á um skólamáltíðir í bæjarstjórn Garðs í gær undir sjötta lið þar sem ræddur var kostnaður vegna hádegisverðar grunnskólabarna og hlutur foreldra í þeim kostnaði.

F-listinn, sem nú skipar minnihlutann í Garði, leggur til að staðið verði við fyrri samþykktir sem samþykktar voru samhljóða í fyrri bæjarstjórn varðandi þennan lið. Tillaga F-listans var hins vegar felld með 4 atkvæðum N-lista sem leggur hins vegar til að bæjarstjórn samþykki að foreldrar greiði 183 kr. fyrir máltíðina.

Greinargerð með tillögu N-lista:
Máltíð grunnskólabarna kostaði 333 kr. á síðasta skólaári. Hlutur foreldra var frá 1. apríl 183 kr. Vegna hækkunar á neysluvísitölu hefur máltíðin hækkað um 28 kr. og mun máltíðin því kosta 361 kr. Ef hlutur foreldra er óbreyttur frá síðasta skólaári eykst kostnaður sveitarfélagsins um u.þ.b. 97.000 kr. á mánuði vegna þessa ef gert er ráð fyrir að svipaður fjöldi barna kaupi máltíð og á síðasta skólaári. Fyrri samþykkt bæjarráðs frá 8. febrúar 2006 og staðfesting bæjarstjórnar 1. mars 2006 um verð á skólamáltíðum fellur jafnframt úr gildi frá og með 7. september en frá 1.-6. september greiða foreldrar 133 kr. fyrir máltíðina eins og fyrri samþykkt gerði ráð fyrir.

Tillaga N-lista samþykkt með 4 atkv. N-lista en 3 fulltrúar F-lista eru á móti.

Bókun F-listans vegna liðs 6 í fundargerð 43. fundar bæjarráðs:
F-listi harmar þessa niðurstöðu, að ekki eigi að standa við að bjóða uppá fríar máltíðir í Gerðaskóla árið 2008 eins og samþykkt var samhljóða í fyrri bæjarstjórn. Ef til vill lýsir þessi afstaða meirihlutans fjölskyldu- og skólastefnu N-listans best. Einnig er rétt að vekja athygli á því, að gjalskrárhækkun N-listans á hverja skólamáltíð nú þegar nemur um 38%.
F-listinn.
 
Bókun N-lista:
N-listi telur að það að bjóða upp á fríar máltíðir í grunnskóla sé ekki forgangsverkefni í fræðslu- og uppeldismálum bæjarins.  Hins vegar sé mikilvægt að börnum gefist kostur á hollum og góðum mat í hádegishléi á viðráðanlegu verði.  Niðurgreiðsla bæjarins við hverja máltíð um rúman helming raunkostnaðar kemur vel til móts við það markmið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024