Garður og Sandgerði ráðgera umbætur á samgöngum
Bæjaryfirvöld í Sandgerði áætla að koma sér upp hópferðabíl til að sjá um samgöngur á milli Sandgerðis og Reykjanesbæjar með viðkomu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mun rekstur hefjast í upphafi nýs skólaárs. Bærinn var á tímabili í viðræðum við bæjarstjórn Garðs um þátttöku þeirra í verkefninu, en upp úr þeim hefur slitnað á meðan Garður leitar nú samninga við SBK um samgöngur til Reykjanesbæjar.
Sigurður Valur Ásbjörnsson, bæjarstjóri í Sandgerði segir í samtali við Víkurfréttir að nú sé stefnt að útboði þar sem verður leitað að hentugri bifreið til að sjá um fólksflutninga. „Við höfum verið í samstarfi vegna rútuferða í FS sem er ekki afgreitt fyrir næsta ár og svo erum við líka með þjónustu fyrir fatlaða auk þess sem við erum með rútu fyrir skólabörn innanbæjar. Þannig sameinum við þessa þætti og bætum þjónustu við bæjarbúa fyrir svipað verð.“
Sigurður segir að þeim hafi ekki hugnast að hafa Garð inni í hringferðinni en hafi hins vegar boðið Garðbúum að vera með í fyrirtæki sem ræki í staðinn tvo bíla.
Garðbúar ákváðu hins vegar að ræða fyrst við SBK um samstarf í samgöngum til Reykjanesbæjar. „Við höfum gert SBK tilboð og þeir eru að fara yfir þau mál í augnablikinu,“ sagði Sigurður Jónsson, bæjarstjóri í Garði, en hann býst við því að málin skýrist á næstu dögum.
„Við finnum fyrir miklum þrýstingi innan bæjarins og stefnum að því að koma samgöngum í gang sem allra fyrst og þá með 3-4 ferðum til Reykjanesbæjar á dag.“