Garður mótmælir að Reykjanesbær leggi niður nefnd um byggingu slökkvistöðvar
Á fundi Bæjarráðs Garðs í gær lá fyrir bréf frá Reykjanesbæ, þar sem greint er frá afgreiðslu Bæjarráðs Reykjanesbæjar á bókun Bæjarráðs Garðs frá 11. janúar sl. vegna húsnæðismála Brunavarna Suðurnesja.
Á vef Sveitarfélagsins Garðs segir að uppi séu hugmyndir um að byggja nýtt húsnæði undir starfsemi Brunavarna Suðurnesja. Eignaraðilar BS eru Reykjanesbær, Vogar og Garður. Fyrir nokkru var skipuð sérstök nefnd að tillögu Garðs, sem hefði það hlutverk að ræða og móta framtíðarstefnu um húsnæðismálin. Sveitarfélögin tilnefndu öll fulltrúa í nefndina, frá Reykjanesbæ Ólafur Thordersen, frá Vogum er Jón Gunnarsson og frá Garði er Einar Jón Pálsson.
Eftir að nefndin tók til starfa breytti Reykjanesbær um afstöðu og telur að stjórn BS eigi ein að fjalla um málið og koma með tillögur til sveitarfélaganna og ákveður að leggja 3ja manna nefndina niður.
Bæjarráð Garðs samþykkti á fundi sínum í gær að ítreka fyrri afstöðu sína þ.e. að skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að fjalla um húsnæðismál BS hefði átt að fá að ljúka störfum og skila áliti til eignaraðila og jafnframt er bæjarstjóra falið að ræða við eignaraðila.