Garður kaupir Útskála á 12 milljónir króna
Hömlur, eignarhaldsfélag Landsbankans, hafa samþykkt að taka kauptilboði Sveitarfélagsins Garðs í Menningarsetrið að Útskálum. Um er að ræða gamla prestsetrið en framkvæmdir voru hafnar við að breyta húsinu í menningarsetur. Félag um þá framkvæmd fór í þrot og eignaðist bankinn húsið í framhaldinu.
Kauptilboð Sveitarfélagsins Garðs hljóðaði upp á 12 milljónir króna en eignin var auglýst í sumar á 23 milljónir króna. Hömlur, eignarhaldsfélag Landsbankans, hafa samþykkt tilboðið með fyrirvara um samþykki stjórnar. Þá hefur Sveitarfélagið Garður samþykkt að ganga til kaupanna og greitt verði með handbæru fé.