Garður: Hagnaður á rekstri sveitarsjóðs
Sveitarsjóður Garðs skilaði 17,8 milljóna króna hagnaði árið 2005 að því er fram kemur í ársreikningum sveitarfélagsins. Á bæjarstjórnarfundi í Garði á miðvikudag var ársreikningurinn lagður fram til fyrri umræðu, en í skýrslu endurskoðenda kemur fram að verulegur bati sé á rekstri á milli ára.
Reksturinn hefur batnað jafnt og þétt síðustu ár, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Garðs. Árið 2003 var tap á rekstri sveitarsjóðs að upphæð kr.36,4 milljónir en árið 2004 var reksturinn á sléttu.
Afkoma samstæðunnar var um fimm milljónum króna lakari árið 2005 en árið á undan, en það skýrist af sölu vatnsveitunnar árið 2004. Sé henni sleppt batnar afkoman um 18 milljónir á milli ára.
Reksturinn skilaði um 43,6 milljónum upp í afborganir og fjárfestingar á árinu 2005. Sambærileg tala á árinu 2004 var 24,7 milljónir. Batinn er um 16,2 milljónir.
Heildareignir samstæðunnar aukast nokkuð vegna fjárfestinga eða um 60 milljónir og eru 1,508 milljarðar í árslok. Eignir á hvern íbúa eru því um 1.125.000 kr.
Veltufjárhlutfall bæjarsjóðs hækkaði úr 1,25 í 1,37 sem er vel ásættanlegt að mati bæjarstjórnar.
Skuldir hækka um 20 þús.á íbúa en eignir aukast á móti um 44 þúsund. Skuldir og skuldbindingar eru nú 690 þús. á íbúa. Ef litið er á heildarskuldir að frádregnum veltufjármunum eru skuldir á hvern íbúa Garðs nú 594 þúsund krónur en voru 575 þúsund í árslok 2004.
Í frétt á heimsíðu bæjarins segir: „Rétt er að undirstrika að Garður hefur ekki farið þá leið að selja fasteignir og leigja síðan. Um þetta hefur verið full samstaða í bæjarstjórn.“