Garður: Fella niður áminningu vegna brota í starfi
Á fundi bæjarstjórnar Garðs nú í síðustu viku var samþykkt samhljóða að áminning sem Pétri Brynjarssyni skólastjóra Gerðaskóla var veitt hinn 7. september sl. vegna brota í starfi verði felld niður.
Í rökstuðningi segir: „Á fundi bæjarstjórnar 14. desember sl. var bæjarstjóra falið að ganga frá starfslokum Péturs Brynjarssonar skólastjóra Gerðaskóla miðað við 31. desember sl. Samkomulag hefur tekist milli aðila um starfslok Péturs og lét hann af starfi skólastjóra 31. desember sl. Af því leiðir að ekki eru lengur forsendur til að fylgja eftir þeirri áminningu sem bæjarstjórn veitti skólastjóranum hinn 7. september 2011. Er hún því formlega felld niður hér með“.
Bókun N lista:
„Starfslokasamningurinn og áminningin ætti að fylgja með tillögunni því allt þetta mál er með eindæmum, rökstuðningur enginn og málið í heild sinni hið furðulegasta. Kostnaður bæjarfélagsins er gríðarlegur og meirihluti bæjarfulltrúa hafa farið offari sem er til skammar fyrir íbúa Garðs“.
Bókun D-lista:
„Til áréttingar skal þess getið að starfslokasamningurinn var lagður fram á fundi bæjarstjórnar sem trúnaðargögn að beiðni lögfræðinga beggja aðila. Fulltrúar N-lista höfðu því kost á að kynna sér innihald samningsins“.