Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garður: Bæjarskrifstofan úr koti í höll
Þriðjudagur 3. júlí 2007 kl. 17:06

Garður: Bæjarskrifstofan úr koti í höll

Sveitarfélagið Garður hefur flutt starfsemi bæjarskrifstofu í nýtt glæsilegt húsnæði að Sunnubraut 4, þar sem Sparisjóðurinn og Samkaup Strax hafa einnig komið sér fyrir. Óhætt er að segja að bæjarskrifstofan hafi farið úr koti og yfir í höll, því aðstaðan er öll betri.

Starfsfólk bæjarskrifstofunnar er nú í óðaönn að taka upp úr kössum, en mikið af gögnum ýmiskonar fylgdu starfsmönnunum frá Melbraut 3, þar sem hrepps- og bæjarskrifstofur hafa verið starfræktar í áratugi.

Öll vinnuaðstaða á nýja staðnum er eins og best verður á kosið. Rúmt er um starfsemina og húsnæðið gefur möguleika á að starfsmönnum fjölgi með stækkandi bæjarfélagi. Auk starfsmanna bæjarins, mun menningarsetrið á Útskálum fá skrifstofurými í húsinu næstu mánuði og þá mun þar einnig opna lögregluvarðstofa, samkvæmt samkomulagi milli Sveitarfélagsins Garðs og Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Á meðfylgjandi mynd eru þrír af starfsmönnum Sveitarfélagsins Garðis, þau Oddný Harðardóttir bæjarstjóri, Margrét Bryndís Haraldsdóttir sem sér um afgreiðslu og Halla Þórhallsdóttir gjaldkeri og launafulltrúi. Einnig má sjá litla gutta á myndinni, sem án efa eiga eftir að láta til sín taka í Garðinum þegar fram líða stundir.

 

Á neðri myndinni sést inn í hluta af nýjum fundarsal bæjarstjórnar í Garði.

 

Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024