Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðmenn stórhuga í framkvæmdum
Föstudagur 26. júní 2009 kl. 12:49

Garðmenn stórhuga í framkvæmdum

Garðmenn eru stórhuga í framkvæmdum nú á krepputímum. Miklar framkvæmdir eru nú við Gerðaskóla í Garði en viðbygging við skólann verður tekin í notkun á komandi skólaári. Stækkun skólans á eftir að breyta miklu í skólastarfinu í Garði, auk þess sem aðstaða kennara verður stórbætt. Þá standa einnig yfir framkvæmdir við skólann þar sem nýr samkomusalur skólans er innréttaður. Einnig verður bókasafnið fært til innan skólans.

Raungreinar fá aukið vægi í Gerðaskóla þegar nýbygging skólans verður tekin í notkun. Til dæmis er fuglaskoðunarturn á nýbyggingunni og sérstakt útisvæði til að vinna úr verkefnum. Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, segir að skólinn fái einnig sérstaka tenginu við síkið neðan við skólann og lífríkið þar verði tengt líffræðikennslu í skólanum. Hann sagði að grettistaki verði lyft í skólamálum í Garði og skólabyggingin sé metnaðarfullt verkefni.

Af öðrum framkvæmdum í Garði má nefna að síðustu vikur hefur verið unnið að miklum endurbótum á fráveitu frá sveitarfélaginu. Tryggvi Einarsson verktaki hefur unnið að því að koma skólpfrárennsli sveitarfélagsins út fyrir stórstraumsfjöru. Hafa stórar og miklar lagnir verið grafnar í jörð og þeim komið langt út í sjó neðan við björgunarstöðina Þorsteinsbúð við Gaukstaði.

Malbikunarvélar hafa verið á ferðinni um Garðinn á síðustu dögum. Skagabrautin hefur verið malbikuð og er nú sem ný, en gatan, sem er lífæðin út á Garðskaga, kom illa undan vetri og var mjög holótt.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024