Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gamli vitinn að fá toppstykkið
Þriðjudagur 7. apríl 2015 kl. 11:50

Gamli vitinn að fá toppstykkið

– og langþráða andlitslyftingu

Íslenska vitafélagið hefur unnið að því að koma upp ljóshúsi á gamla vitann á Garðskaga.  Ljóshús var á vitanum meðan hann var í notkun, en eftir að vitinn var lagður niður árið 1944 var ljóshúsið tekið af honum og hefur ekki sést á Garðskaga síðan því það glataðist. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, greinir frá því í pistili á vef Sveitarfélagsins Garðs að Vitafélagið hefur í nokkurn tíma unnið að málinu og er von til þess að ljóshús verði aftur komið á vitann áður en langt um líður.

Gamli vitinn var byggður á vegum dönsku vitamálastjórnarinnar árið 1897 og var yfirsmiður sá sami og sá um smíði Alþingishússins árin 1881-82. Þegar vitinn var byggður voru aðeins tveir aðrir vitar fyrir á landinu, Reykjanesviti og Dalatangaviti. Ljóshúsið á vitanum var 3,6 m. á hæð og var hæð vitans alls 15 m með ljóshúsinu. Upphaflegar teikningar af ljóshúsinu eru til og verður stuðst við þær við endursmíði þess.

Vitinn er nú næst elsti uppistandandi vitinn á landinu. Hann hefur því mikið menningarsögulegt og umhverfislegt gildi, hann er sterkt og lifandi tákn fyrir Garðskagann og Sveitarfélagið Garð, en vitarnir á Garðskaga eru táknmyndin í bæjarmerki sveitarfélagsins. Gamli vitinn á Garðskagatá mun fá langþráða „andlitslyftingu“ við að fá aftur á sig toppstykkið, segir Magnús að lokum í pistlinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024