Gamli Garðskagavitinn aðgengilegur fyrir hreyfihamlaða
Unnið hefur verið að því að gera aðkomuna að gamla vitanum á Garðskaga „aðgengilega fyrir alla“ en vitinn er mjög vinsæll áfangastaður ferðamanna. Það voru Ferðamálasamtök Suðurnesja sem létu vinna verkið fyrir styrk frá Umhverfissjóði Ferðamálastofu.
Að sögn Kristjáns Pálssonar, formanns Ferðamálasamtaka Suðurnesja, er það opinber stefna að sem flestir áfangastaðir ferðamanna verði aðgengilegir fyrir alla og er þetta verkefni unnið er samkvæmt þeirri áætlun. Suðurnesin taka þátt í þessu verkefni og hafa gert áætlun um að lagfæra aðgengið að 20 ferðamannastöðum á Reykjanesi.
Næsta verkefni er í undirbúningi sem er aðgengi að Gunnuhver á Reykjanesi og að Valahnjúk.
Það var Róbert Aron sem klippti á borðann með aðstoð Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra og Oddnýjar Harðardóttur bæjarstjóra og opnuðu þannig aðgengið út að Garðskagavita formlega. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson