Gamla Keflavíkurgrasið endurunnið
Eins og greint var frá fyrir helgi hér á vf.is verður heimavöllur Keflavíkur endurnýjaður nú á haustmánuðum. Framkvæmdin verður boðin út á næstu dögum en skipt verður um undirlag vallarins og sett nýtt gras. Nýr keppnishæfur völlur verður síðan tilbúinn í byrjun næsta sumars.
Nýi Keflavíkurvöllurinn verður stækkaður í allar áttir ef svo má að orði komast. Byrjað verður á því að taka grasið af vellinum og það endurunnið á nýtt æfingasvæði ofan Reykjaneshallar. Skipta þarf um allan jarðveg undir núverandi velli og fjarlægja klöpp sem þar er. Þá munu gömlu hlaupabrautirnar sem liggja umhverfis völlinn víkja fyrir grasi en menn vilja hafa þann möguleika að geta fært til álagsfleti á vellinum. Núverandi völlur er oft í slæmu ástandi bæði á vorin og haustin þar sem hann nær ekki að losa sig við vatn sem safnast fyrir á vellinum.
Stefán Bjarkason framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar sagðist í samtali við Víkurfréttir ekki geta gefið upp kostnaðartölur við framkvæmdina, þar sem hún hafi ekki ennþá verið boðin út. Hins vegar sé um að ræða mikið verk sem felur m.a. í sér mikil jarðvegsskipti, hitalögn undir völlinn, vökvunarkerfi, nýtt auglýsingakerfi umhverfis völlinn.
Framkvæmdin verður öll samkvæmt stöðlum frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Stefán sagði að ráðist verði í verkið sem fyrst eftir að Íslandsmótinu í knattspyrnu lýkur en Keflavík á eftir að leika einn heimaleik. Lokið verði við að tyrfa völlinn síðar í haust og hann ætti því að vera kominn í leikhæft ástand um miðjan júní á næsta ári, sé mið tekið af svipaðri framkvæmd sem ráðist var í í Kaplakrika í Hafnarfirði.
Aðspurður um það hvort sú hugmynd hafi komið upp að grafa völlinn niður um, segir Stefán að að sá möguleiki hafi verið skoðaður. Bara sú framkvæmd kosti hins vegar vel á annan tug milljóna aukalega og ávinningurinn sé ekki mikill.
Mynd: Úr leik á knattspyrnuvellinum í Keflavík. Grasið verður tekið af vellinum og notað á æfingasvæði félagsins ofan Reykjaneshallar. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson