Gamla aðalhliðið fær nýtt hlutverk
Gamla varðskýlið við aðalhliðið að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli hefur fengið nýtt hlutverk. Það mun áfram fá að þjóna sem varðskýli en nú hjá nýjum herrum að Ásbrú.
Nú er unnið að því að koma varðskýlinu fyrir á nýjum steyptum sökkli efst á svonefndri Grænásbraut á Ásbrú. Þar verður von bráðar opnað nýtt varðhlið inn á yfirráðasvæði Varnarmálastofnunar Íslands. Stofnunin er í dag með hlið sem er fjarstýrt og verður það fært til þegar varðskýlið verður tilbúið til notkunar.
Varðskýlið sem í morgun var flutt til á Ásbrú var eldra skýlið í gamla aðalhliðinu. Það var í notkun og lokaði herstöðinni þegar hryðuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin 11. september 2001. Fljótlega var ráðist í byggingu á nýjum varðstöðvum bæði við Grænás og í aðalhliðinu.
Grænáshliðið er ennþá í notkun en Keflavíkurflugvöllur ohf. rekur það sem þjónustuhlið fyrir austursvæði Keflavíkurflugvallar. Varðskýlið sem byggt var í aðalhliðinu hafði vart verið tekið í notkun þegar tilkynnt var um brottför Varnarliðsins frá Keflavík.
Varðskýlið sjálft stendur sem minnisvarði um liðna tíð og á gafli þess er stórt skilti sem býður fólk velkomið á Ásbrú. Við hlið varðskýlisins er síðan skrifstofubygging sem er í notkun í dag.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi þar sem skýlið verður í framtíðinni og af staðnum þar sem það stóð áður.