Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gamall tankur fær listrænan tilgang
Föstudagur 31. október 2008 kl. 09:43

Gamall tankur fær listrænan tilgang



Ef hugmyndir listunnandans og athafnamannsins Birgis Guðnasonar ganga eftir mun listaverkið Njörður eftir Erling Jónsson í framtíðinni fá sess á tankinum við Rammahúsið í Innri -Njarðvík. Að sögn Birgis hefur hann kynnt hugmyndina lítillega og fengið ágætar undirtektir en til stendur að útfæra hugmyndina og kynna betur á næstunni.

Á þeim árum sem trésmiðjan Rammi starfaði í byggingunni var kyndingu hússins þannig háttað að spæni var safnað í tankinn og hann brenndur til upphitunar. Uppi eru hugmyndir um framtíðarnýtingu hússins en tankurinn þjónar ekki upprunalegum tilgangi sínum lengur. Hugmyndir Birgis ganga út á að uppi á tankinum verði komið fyrir listaverkinu Nirði eftir Erling Jónsson.  Verkið er þrívítt og yrði upplýst á snúningsdiski en inni í tankinum búnaður sem knýja mun diskinn.

Kveikjan að verkinu Nirði var m.a. bæjarmerki Njarðvíkur sem Áki Gränz hannaði á sínum tíma. Sjálfur lýsir Erlingur verkinu svo: „Gamalt máltæki segir, kóngur vill sigla en byr ræður. Njörður er guð hagældar hafs og vinda og blæs sjálfur í sín segl og siglir eftir eigin geðþótta".


VFmynd/elg:  Eitthvað í þessu veru gæti hugmyndin litið út verði hún að veruleika.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024