Gamall draumur að opna blómabúð
Draumalandi hefur verið skipt upp í tvö rými, Draumaland sem býður upp á heimilisvörur og Blómaland en þar er hægt að finna blóm og aðrar gjafavörur frá merkjum á borð við Sía og 1928. Þá er alltaf hægt að finna tilbúnar skreytingar til tækifærisgjafa.
Ástæðan fyrir þessari breytingu er gamall draumur Nönnu Jónsdóttur, eiganda verslunarinnar um að opna blómabúð. „Mér fannst rétti tíminn til að gera róttækar breytingar núna. Allt umhverfið hér er orðið svo fallegt og það ýtti á mig. Við bæjarbúar megum vera stolt af þessari upplyftingu og vonandi skapast meira líf í miðbænum. Blómaland hjálpar kannski til að einhverju leyti,“ sagði Nanna.
„Undirtektirnar hafa verið ótrúlegar og augljóst að fólk metur þetta framtak. Sjálf er ég mjög ánægð enda hefur þetta blundað í mér lengi. Ég er sérstaklega ánægð með að hafa fengið Söndru Svavarsdóttur til starfa hjá mér en hún var áður starfandi hjá Blómabúð Guðrúnar og kann því vel til verka,“ sagði Nanna að lokum.
VF-mynd/Margrét