Gamalgrónar fá andlitslyftingu og viðhald tveggja skoðað
Bæjarstjórnin í Garði samþykkti samhljóða á fundi sínum í vikunni að í sumar verði klæðning sett á þrjár gamalgrónar götur í svokölluðum Inn-Garði. Göturnar sem um ræðir eru Varnarvegur, Kothúsavegur og Meiðastaðavegur. Þá verða lagðar gangstéttar við Borgartún, Lindartún og Silfurtún. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 22,7 milljónir króna.
Þá verður lífæðin í gegnum Garðinn, Garðbraut og Skagabraut, skoðaðar í vor með tilliti til viðhalds, en farið er að bera á holum á þessum vegum.
Á bæjarstjórnarfundinum bar Hrafnhildur Sigurðardóttir, H-lista upp fyrirspurn:
„Vegna áætlunar varðandi verklegar framkvæmdir óska ég eftir að fá upplýst hvort fyrirhuguð er nýlögn í Skagabraut og Garðbraut. Eins hvað varðar Silfurtún 18-20, þar fyrir framan, er einhver breyting fyrirhuguð þar og þá hver.Eins og menn vita er þetta algjörlega ótækt ástand. Gott væri að fá að vita um þetta."
Upplýst var að gerð hefur verið tillaga um planið fyrir utan Silfurtún,en ekki búið að taka ákvörðun hvenær verði farið í framkvæmdina.
Myndin: Frá Garðskaga. Leiðin þangað verður skoðuð í vor með tilliti til þess að ekki verði of margar holur á leiðinni. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson