Gagnrýndi lítið samstarf Keflavíkur og Njarðvíkur
„Það er til skammar hvað samstarf íþróttafélaganna Keflavík og Njarðvík er lítið og forráðamenn þeirra þurfa að laga það,“ sagði Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær.
Friðjón var harðorður um þetta mál sem kom upp í umræðu um könnun um hegðan og líðan eldri ungmenna í bæjarfélaginu en greina má niðursveiflu í íþrótta- og tómstundaástundum unglinga sem þurfi að kanna betur. Friðjón benti á í þessu sambandi að það væri sérstakt að sjá hvernig nýting á sal Reykaneshallarinnar væri en hann sagðist þekkja það mál vel. Oft væri nýtingin þannig að í helmingi salarins væru 10 manns en 50 hinum megin þegar félögin væru með sitt hvorn helminginn í notkun. Bæjarfulltrúinn benti á að samstarfið almennt þyrfti að aukast, t.d. í kvennaknattspyrnu en hann segir þróun þar ekki góða og verði ekki eitthvað gert muni sú grein líða undir lok á næstu árum. Þá sagði bæjarfulltrúinn það mjög sérstakt hvað samvinna væri lítil í mörgm þáttum, t.d. í slætti á knattspyrnuvöllum.
Gunnar Þórarinsson, Sjálfstæðisflokki, sagðist ekki geta tekið undir þetta og benti á góða samvinnu félaganna í tengslum við Nettó-mótið í körfubolta krakka og vinnu í kringum Ljósanótt.