Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gagnaverið á Keflavíkurflugvelli í uppnámi vegna nýrra laga frá Alþingi
Mánudagur 1. desember 2008 kl. 02:42

Gagnaverið á Keflavíkurflugvelli í uppnámi vegna nýrra laga frá Alþingi

 
Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holdings hf., sem hyggst reisa gagnaver á Keflavíkurflugvelli og hefur keypt tvö stór vöruhús í þeim tilgangi af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, fyrir miklar fjárhæðir hefur áhyggjur af framtíð verkefnisins í kjölfar nýrra laga sem sett voru á Alþingi fyrir helgi. Vilhjálmur vill meina að lögin banni erlenda fjárfestingu. Í grein á vefsíðu sinni segir Vilhjálmur: „Ef Seðlabankanum er alvara sé ég ekki betur en að menn geti pakkað saman og gleymt því verkefni, og nýja sæstrengnum Danice í leiðinni“.
 
Pistill Vilhjálms er hér meðfylgjandi:
Fyrsta grein nýrrar reglugerðar Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti hefst svona:
Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peninga-markaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum með erlendum gjaldeyri er óheimil.
Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að erlend fjárfesting sé þar með bönnuð í landinu.
Nú vill svo til að ég er stjórnarformaður í félaginu Verne Holdings hf. sem hyggst reisa gagnaver í Keflavík og hefur keypt tvö stór vöruhús í þeim tilgangi af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, fyrir miklar fjárhæðir.  Í félaginu eru erlendir fjárfestar sem ætluðu að koma með verulegt magn dollara inn í landið sem hlutafé í Verne Holdings.  Ef Seðlabankanum er alvara sé ég ekki betur en að menn geti pakkað saman og gleymt því verkefni, og nýja sæstrengnum Danice í leiðinni.
Er þetta það sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda um þessar mundir?  Eða er þetta enn eitt dæmið um mistök Seðlabanka?  Hvernig útskýrir maður svona rugl fyrir útlendingum?
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024