Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gáfu Hlévangi göngugrindur
Fimmtudagur 17. janúar 2008 kl. 17:07

Gáfu Hlévangi göngugrindur

Árnesingafélagið í Keflavík kom færandi hendi á dvalarheimilið Hlévang í vikunni þar sem þeir gáfu dvalarheimilinu tvær göngugrindur. Var gjöfinni afar vel tekið, þar sem full þörf var á slíkum tækjum.

Þessi gjöf markar nokkur tímamót því með því lýkur formlega starfi félagsins sem var stofnað þann 5. janúar 1947. Til þess var stofnað til að viðhalda tengslum fólks sem flutt hafði frá Ársnessýslu til Suðurnesja, sem og við átthagana. Við stofnun voru 15 meðlimir en þegar flest var fór fjöldi félagsmanna hátt í 100 manns.

Félagið hefur í gegnum árin styrkt menn og málefni með fjárframlögum og má þar nefna byggingu félagsheimilis Karlakórs Keflavíkur og viðbyggingu Hlévangs auk þess sem félagið lét fé af hendi rakna í Vestmannaeyjagosinu árið 1973. Einnig hefur félagið oft styrkt einstaklinga sem hafa átt um sárt að binda vegna veikinda eða annarra erfiðleika.

En tímarnir breyst og mennirnir með, eins og segir í tilkynningu frá félaginu, og var ákveðið á aðalfundi félagsins í nóvember 2006 að leggja félagið niður. Síðasta skemmtun á vegum félagsins var haldin þann 5. janúar 2007, nákvæmlega 60 árum eftir að félagið var stofnað.


Þeir fjámunir sem eftir voru hjá félaginu voru settir í að kaupa göngugrindurnar fyrir Hlévang og munir félagsins verða varðveittir hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Vf-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024