Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gáfu 1. bekkingum reiðhjólahjálma
Föstudagur 20. maí 2005 kl. 14:05

Gáfu 1. bekkingum reiðhjólahjálma

Kiwanisklúbburinn Keilir í Reykjanesbæ hóf í morgun yfirreið sína í skólum Reykjanesbæjar í því átaki að gefa öllum nemendum í 1. bekkjum grunnskólanna reiðhjólahjálma. Um er að ræða landsátak Kiwanishreyfingarinnar sem gefur alls um 4200 hjálma í öllum skólum landsins í samstarfi við Eimskip-Flytjanda, en verkefnið nýtur einnig stuðnings og ráðgjafar Herdísar Storgaard hjá Lýðheilsustöð.

Á síðasta ári tók hreyfingin höndum saman við Eimskip um sama verkefni og gekk það svo vel að ákveðið var að endurtaka leikinn. Í ár fóru Keilismenn fyrst í Njarðvíkurskóla, svo í Holtaskóla og þá Myllubakkaskóla, en krakkarnir í Heiðarskóla fá sína hjálma á mánudaginn.

Þeir Eiður Ævarsson og Erlingur Hannesson afhentu hjálmana fyrir hönd Keilis, en þeim til fulltingis var lögreglumaðurinn Kristján sem fór yfir rétta hjálmanotkun og skerpti á ýmsum umferðaröryggismálum sem krakkarnir virtust standa nokkuð klár á.

Kiwanisklúbburinn Hof í Garði mun sjá um dreifingu í Garði, Sandgerði og Grindavík, en Keilismenn sjá um Stóru-Vogaskóla.

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024