Gaf slysa- og bráðamóttökunni iPad
Slysa- og bráðamóttaka Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fékk í gær afhenta iPad spjaldtölvu. Spjaldtölvan er hugsuð fyrir börn sem leita á slysó, en afþreyingu hefur vantað fyrir börnin þegar fanga þarf athygli þeirra eða á meðan þau hafa þurft að bíða. Starfsfólk slysó hefur oft þurft að lána börnunum snjallsímana sína til þess að fara í leiki en núna mun iPad-inn sjá um að stytta börnum stundir.
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, hefur síðustu vikur staðið fyrir söfnun í svokallaðan Gleðisjóð. Sjóðurinn bauð á dögunum 110 hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í Þjóðleikhúsið. Hilmar Bragi hefur safnað framlögum í sjóðinn á meðal vina sinna á Facebook og í miðri söfnun barst Hilmari beiðni um að koma að kaupum á spjaldtölvu fyrir slysa- og bráðamóttökuna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hilmar Bragi gat ekki skorast undan beiðninni og með hjálp vina sinna á Facebook urðu kaupin á spjaldtölvunni að veruleika.
Í gær afhenti svo Bárður Sindri Hilmarsson, sonur Hilmars Braga, spjaldtölvuna á slysó í Keflavík að viðstöddu fjölmenni. Þar kom fram að gjöfin væri sú fyrsta frá einstaklingi til slysa- og bráðamóttöku HSS. Starfsfólkið var mjög þakklátt fyrir gjöfina sem mun koma að góðum notum fyrir unga notendur þjónustu slysó í Keflavík.
Hilmar Bragi vill nota tækifærið og þakka bakhjörlum sínum fyrir stuðninginn við verkefnið en bæði iPad-inn og leikhúsmiðarnir 110 voru keyptir fyrir söfnunarfé sem barst í Gleðisjóðinn frá vinum Hilmars Braga á Facebook og nokkrum fyrirtækjum á Suðurnesjum.