Gaf myndarlega minningargjöf um föður sinn
Krabbameinsfélag Suðurnesja hefur veitt viðtöku peningagjöf að upphæð 300.000. Þóra Kristín Hjaltadóttir gaf fyrrgreinda upphæð í minningu föður síns, Hjalta Heimis Péturssonar, sem lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram árið 2009.
Í tilefni af þrítugsafmæli sínu ákvað Þóra Kristín að leggja félaginu lið með því að afþakka allar afmælisgjafir en óskaði jafnframt eftir fjárframlögum frá sínum nánustu en hún lagði síðan sjálf fram sömu upphæð á móti.
Með gjöfinni vill Þóra Kristín heiðra minningu föður síns og ennfremur vekja athygli á að veikindum fylgir oft fjárhagsvandi. Því hvetur hún aðra til þess ad gera slíkt hið sama og leggja félaginu lið þar sem margt smátt gerir eitt stórt eins og hún komst sjálf að orði.
Þóra Krístín vill þakka fjölskyldu sinni og vinum fyrir að gera sér kleift að geta látið gott af sér leiða með þessum hætti sem nýtist út í samfélagið.
Stjórn Krabbameinsfélags Suðurnesja sendir bestu þakkir fyrir þetta rausnarlega framlag.
Efri myndin: Anna María Einarsdóttir, starfsmaður KS veitir viðtöku peningagjafar frá Þóru Kristínu. Minni myndin er af Hjalta Heimi Péturssyni.