Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gætu verið þó nokkrir dagar ef landið þarf að þenjast meira út
Frá hamfarasvæðinu við Sundhnúkagígaröðina. VF/Hilmar Bragi
Sunnudagur 11. ágúst 2024 kl. 20:48

Gætu verið þó nokkrir dagar ef landið þarf að þenjast meira út

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ, segir í samtali við Víkurfréttir að það sé erfitt að segja til um hvenær næsta kvikuhlaup eða eldgos við Sundhnúkagígaröðina kemur. Hann segir að ef landið þarf að þenjast meira út en síðast gætu þetta verið þó nokkrir dagar í atburðinn.

„Hingað til höfum við sé töluverða viðbótarþenslu í undanfara goss miðað við atburðinn á undan. Ef kerfið hegðar sér nú á sama hátt virðast efri mörkin liggja í fyrri hluta september. Semsagt, ólíklegt að þetta dragist lengur en það,“ segir Magnús Tumi. Hann segir mikilvægt að taka fram að um þetta er ekkert hægt að fullyrða og bendir á að gossvæði eru ekkert endilega að fylgja svona „reglum“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Gos gæti því vel orðið töluvert fyrr. Best er að vera við öllu búin.“

Magnús Tumi segir engin merki um að kvikan undir Svartsengi hafi risið, Hún er að safnast fyrir á ca. 5 km dýpi.

„Ef t.d. kæmi innskot sem færði einhverja kviku upp um 1-2 km, myndum við sjá tilfærslur í GPS vegna þess að kvikan myndi færa til bergið umhverfis. Svo eðlilegast er að túlka þetta þannig að kvikan sé að safnast á sama stað og áður. Og þegar kemur til goss/kvikuhlaups koma fram ákveðin merki í bæði GPS aflöguninni og jarðskjálftunum. En ef hún fer beint upp, sem verður að teljast líklegt, má vera að fyrirvarinn verði æði skammur ~1 klst.“

Magnús Tumi segir að ef kvikan leitar til hliðar, í átt að Grindavík eða til norðurs, tekur það tíma eins og sást í janúar gosinu þegar atburðarásin í aðdraganda goss var um fimm tímar. Semsagt, fyrirvarinn verður líklega nokkru lengri ef kvikan kemur ekki beint upp.

Unnið við varnargarða upp af orkuverinu í Svartsengi. Hagafell í baksýn. VF/Himar Bragi