Gætu framleitt Bond-mynd í Reykjanesbæ
Nýtt kvikmyndaver Atlantic Studios að Ásbrú í Reykjanesbæ er einstakt hér á landi og aðeins eru til fáein kvikmyndaver af þessari stærðargráðu í allri Evrópu. Kvikmyndaverið var formlega afhent um liðna helgi að viðstöddum iðnaðarráðherra og fleiri gestum. Kvikmyndaverið er sömu stærðar og kvikmyndaverið sem notað er við framleiðslu James Bond-myndanna.
Það kom í hlut Kjartans Þórs Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að afhenda kvikmyndagerðarmanninum Júlíusi Kemp og Birni Sigurðssyni frá Senu lyklavöldin að kvikmyndaverinu. Áður höfðu bæði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ ávarpað samkomuna.
Kvikmyndaverið er mjög glæsilegt og með mikla þjónustu í næsta nágrenni og getur boðið upp á aðstöðu jafnt á við það besta í Evrópu. Húsið sem er gamalt flugskýli varnarliðsins er alls 5000 fm2 og skiptist í kvikmyndaver sem er 2200 fm2, í skrifstofurými, geymslur, hreinlætisaðstöðu og veitingaaðstöðu sem er 2800fm, og í útisvæði sem er 7000 fm2 og allt innan girðingar.
Húsnæðið hefur verið endurbætt gríðarlega síðustu mánuði og hefur það t.d verið alveg hljóðeinangrað sem og að rafmagnsmál hafa verið endurnýjuð til að standast kröfur stærstu kvikmyndaframleiðanda í heiminum í dag. Einnig má geta þess að útsogskerfið í húsinu er svo fullkomið að hægt er að reykræsta húsið á þremur mínútum. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur séð um allar framkvæmdir á húsinu.
Á næstu vikum hefst ferli þar sem innlendum og erlendum aðilum úr kvikmynda og auglýsingabransanum verður boðið til að kynna sér Atlantic Studios betur. Erlend kvikmyndafyrirtæki ættu að renna hýru auga til Atlantic Studios enda er kvikmyndaverið mjög ódýrt í leigu miðað við önnur lönd vegna gjaldeyrismála hér í landi. Talið er að það taki um þrjú ár að byggja upp alþjóðlega þekkingu og reynslu af Atlantic Studios til að ná fullum rekstri. Atlantic Studios mun geta boðið upp á gistingu, aðgang að sundlaug, líkamsræktarstöð, íþróttarhúsi og mörgu fleira í aðeins nokkra mínúta fjarlægð við kvikmyndaverið. Atlantic Studios er staðsett aðeins 5 mínútur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem útlendingum þykir mjög heppilegt.
Sena er einn eigenda kvikmyndaversins og mun sjá um rekstur þess. Stefnt er að því að bjóða öðrum íslenskum framleiðendum og þjónustuaðilum kvikmyndaiðnaðarins aðkomu að eignarhaldi og rekstri fyrirtækisins.
Hér á örugglega eftir að taka upp stórmyndir framtíðarinnar, hvort sem það eru Hollywood, Bollywood eða Icywood...
Stjórnarmenn Kadeco ásamt iðnaðarráðherra og fulltrúum eigenda Atlantic Studios. Á efstu myndinni afhendir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, Júlíusi Kemp, kvikmyndagerðarmanni, lyklana af myndverinu. Myndir: Páll Ketilsson