Gæti fengið dauðarefsingu
Bandarískur hermaður hefur verið ákærður fyrir að myrða Class Ashley Turner í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli í ágúst á síðasta ári. Mbl.is greinir frá þessu í dag og hefur eftir Stars and Stripes, málgagni Bandaríkjahers, að hermaðurinn sé grunaður um að hafa framið morðið til að koma í veg fyrir að Turner bæri vitni gegn sér fyrir rétti.
Calvin Eugene Hill, meðlimur í 56. björgunarsveit Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur um morð að yfirlögðu ráði en hann er ákærður fyrir að stinga Turner til bana. Turner var einnig í flugliði varnarliðsins og hefur Mbl.is það eftir Star and Stripes að Hill hafi verið grunaður um að stela peningum frá Turner með því að nota bankakort hennar til að taka út úr hraðbönkum. Í kjölfarið var Hill ákærður og átti yfir höfði sér að fara fyrir herrétt.
Mynd: Íbúðablokkin þar sem voðaverkið var framið