Fyrstir til að hefja notkun á umhverfisvænu lakki
Bílasprautun Suðurnesja er fyrsta fyrirtækið á Suðurnesjum til þess að hefja notkun á umhverfisvænu vatnslakki. Í þessu nýja vatnslakki er hvorki þynnir né önnur spilliefni og því má anda að sér ólíkt fyrri bílalökkum sem voru mjög hættuleg við innöndun.
„Vatnslakkið er jafn sterkt og það gamla sem við vorum að nota en glærurnar sem eru í lakkinu hafa verið gerðar umhverfisvænni en áður,“ sagði Júlíus G. Gunnlaugsson, einn eigenda Bílasprautunar Suðurnesja, en hann hefur mjög jákvæða reynslu af nýja lakkinu.
Bílasprautun Suðurnesja hóf að nota þessa nýju tegund af lakki í byrjun desember 2004 en víða erlendis er eingöngu notast við vatnslakk. „Árið 2007 eiga öll verkstæði sem sprauta bíla að vera komin með þessi umhverfisvænu efni í notkun en það eru um 20 ár síðan vatnslakkið var á þróunarstigi og tæp 15 ár síðan að það fór í notkun erlendis,“ sagði Júlíus og því ekki seinna vænna en að Íslendingar tækju upp þessa náttúruvænu nýjung.
VF-mynd/ Jón Björn, [email protected]