Fyrsti nemandi Menntaskólans á Ásbrú útskrifaður
Á laugardaginn 18. desember síðastliðinn fór fram hátíðleg athöfn í húsnæði Keilis á Ásbrú í tilefni fyrstu útskriftar Menntaskólans á Ásbrú.
Menntaskólinn á Ásbrú hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrsti nemendahópurinn hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og er áætluð útskrift þessa hóps vorið 2022. Þrátt fyrir að stúdentsbrautin sé skipulögð sem þriggja ára nám er möguleiki fyrir hendi að taka námið á lengri eða styttri tíma, eins og átti við í útskrift laugardagsins, þar sem Lovísa Gunnlaugsdóttir útskrifaðist með glæsibrag fyrst allra, á tveimur og hálfu ári, með 9,78 í meðaleinkunn.
Nanna Kristjana Traustadóttir, fráfarandi skólameistari MÁ og framkvæmdastjóri Keilis stýrði athöfninni og flutti ávarp. ,,Fyrsta útskriftin úr Menntaskólanum á Ásbrú markar afar merkileg tímamót. Það hefur verið ævintýri líkast að sjá nýjan skóla verða til, vaxa og dafna undanfarin misseri. Framsýni í kennsluháttum og persónuleg nálgun í náminu er vel sýnileg í því að fyrsti nemandinn skuli ljúka stúdentsprófi á fimm önnum. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í slíku starfi“ segir Nanna Kristjana Traustadóttir.
Í upphafi athafnar var tónlistaratriði, Trompet tríó, sem flutt var af Almari Erni Arnarsyni, Bergi Daða Ágússtsyni og Kareni J. Sturlaugsson. Ingibjörg Lilja Guðmundsdóttir, kennari MÁ, flutti hátíðarræðu fyrir hönd kennara og Lovísa sjálf flutti útskriftarræðu. Lovísa var jafnframt verðlaunuð fyrir framúrskarandi námsárangur með gjöf frá CCP og peningaverðlaunum frá Keili.
Menntaskólinn á Ásbrú (MÁ) er einn af fjórum skólum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. MÁ hefur frá árinu 2019 boðið nemendum að stunda nám á metnaðarfullri stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Námið byggir á hagnýtum verkefnum og sterkum tengslum við atvinnulífið. Lagt er áherslu á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Námsframboð í MÁ er í stöðugri þróun, en í dag er þar einnig starfrækt fjarnámshlaðborð með stökum framhaldsskólaáföngum sem kenndir eru í fjarnámi.