Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrsta vetnisknúna fiskiskip veraldar úr Grindavík?
Miðvikudagur 8. október 2003 kl. 13:34

Fyrsta vetnisknúna fiskiskip veraldar úr Grindavík?

Fyrsta vetnisknúna fiskiskip veraldar mun hugsanlega koma frá Grindavík, en fyrirtækið Þorbjörn Fiskanes tekur þátt í verkefni á vegum Nýorku sem miðar að vetnisvæðingu fiskiskipaflotans. Tilkynnt var um verkefnið á laugardag þegar tveir vetnisknúnir strætisvagnar voru teknir í notkun í Reykjavík, en vagnarnir eru hluti af vetnisverkefni sem meðal annars er á vegum Evrópusambandsins. Hjálmar Árnason alþingismaður var heiðraður sérstaklega við þetta tilefni þar sem hann hefur verið einn helsti frumkvöðull þessa verkefnis. Það er fyrirtækið Nýorka sem heldur utan um verkefnið hér á landi, en fyrirtækið er í eigu Daimler Chrysler, Shell, Norsk Hydro og íslenskra fyrirtækja og stofnana. Framkvæmdastjóri Nýorku er Jón Björn Skúlason sem eitt sinn starfaði á vegum Markaðs- og atvinnuskrifstofu Reykjanesbæjar.

Fjölmörg erlend og Íslensk fyrirtæki taka þátt í verkefninu um vetnisvæðingu fiskiskipaflotans. Að sögn Hjálmars Árnasonar er ætlunin að 100 tonn fiskiskip verði vetnisknúið og segir Hjálmar að það sé vel hugsanlegt að fyrsta vetnisknúna fiskiskip veraldar kæmi frá Grindavík. "Þorbjörn Fiskanes hefur haft mikinn áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni. Með vetnisvæðingu fiskiskipaflotans er tilgangurinn að minnka umhverfismengun og ekki síður hávaðamengun, því með vetnisvél hættir titringur frá vélinni og hávaði hverfur. Mér finnst þetta verkefni verulega spennandi og skemmtilegt skuli tengjast Suðurnesjum með svo margvíslegum sem raun ber vitni," sagði Hjálmar í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024