Fyrsta verk að keyra atvinnulífið í gang
„Ég er ánægður með að markmiðinu um að endurheimta fjórða mann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var náð. Það er mjög mikilvægt að við séum fjölmennur og öflugur hópur sem getum látið til okkar taka. Ég hlakka mikið til að fá að hefjast handa við efla Suðurnesin enn frekar. Þetta var góður og ánægjulegur sólarhringur fyrir okkur Grindvíkinga, fengum þrjá þingmenn og tvo Íslandsmeistaratitla,“ segir Vilhjálmur Árnason, sem skipar 4. sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Vilhjálmur er nýr á Alþingi.
- Hvað á að vera það fyrsta sem þið sem hópur þingmanna frá Suðurnesjum ættuð að hafa sem fyrsta verk fyrir Suðurnes á Alþingi?
„Okkar fyrsta verk verður að koma stóru málunum af stað, keyra atvinnulífið í gang og hefja endurreisn í heilbrigðismálunum. Það er öflugt fólk sem hefur verið að vinna í þessum málum hér á Suðurnesjum en þau þurfa stuðning stjórnvalda og það verður okkar hlutverk að láta þau finna fyrir þessum stuðningi. Við munum forgangsraða í þágu þessara mála,“ segir Vilhjálmur Árnason í samtali við Víkurfréttir.