Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrsta uppskeran í Grænu smiðjunni
Fimmtudagur 8. maí 2008 kl. 18:41

Fyrsta uppskeran í Grænu smiðjunni



ORF Líftækni vígði formlega í dag hátæknigróðurhúsið Grænu smiðjuna sem liggur rétt  utan við Grindavíkurbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi athöfn var í tilefni þess að fyrsta uppskeran af erfðabreyttu byggi ORF var tekin í dag og var það Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sem fékk heiðurinn af því að klippa fyrstu öxin af uppskerunni.

Með hjálp erfðatækni sem þróuð hefur verið af ORF framleiðir byggið sérvirk og verðmæt prótein sem eru meðal annars notuð við læknisfræðilegar rannsóknir, lyfjaþróun og sem lyf. Í tilkynningu frá ORF segir að með frekari uppbyggingu í tengslum við ný verkefni og fyrirhugaða byggingu próteinhreinsiverksmiðju sé áætlað að starfsemi ORF skapi fjölmörg störf í Grindavík en rúmlega 20 manns starfa nú hjá fyrirtækinu, flestir þó á Höfuðborgarsvæðinu.

Björn Lárus Örvar, sameindaerfðafræðingur og framkvæmdastjóri ORF Líftækni, fer fyrir verkefninu og sagði m.a. í ávarpi sínu að nú væri öflugt vísinda- og þróunarstarf fyrirtækisins undanfarin ár farið að skila sér. „Við sjáum mikil tækifæri til vaxtar, sérstaklega á sviði lyfjaþróunar. Samfara auknum og nýjum verkefnum hyggjum við á frekari uppbyggingu starfseminnar hér í Grindavík og erum að skoða ýmsar leiðir að því að efla forystu okkar á þessu sviði.”

Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, lýsti einnig yfir mikilli ánægju með þetta nýja og spennandi fyrirtæki sem ORF er og sagðist hlakka til að vinna með fyrirtækinu í framtíðinni. „Grindavík er kjörinn staður fyrir starfsemi af þessu tagi þar sem stutt er í alla orku og landkostir góðir og við vonum að starfsemin megi vaxa og dafna til framtíðar.”

Í niðurlagi sínu brýndi Ólafur stjórnvöld til að hlúa að nýsköpunarfyrirtækjum eins og ORF sem hann líkti við „græna stóriðju“, en þess má einnig geta að ORF Líftækni hlaut einmitt Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2008 fyrir skemmstu.

Þar sem framleiðslan sem fer fram í Grænu Smiðjunni er afar flókin og vísindaleg fylgir hér á eftir lýsing úr tilkynningu frá ORF Líftækni:

Græna smiðjan er einstök á heimsvísu og framleiðslan í henni er að mestu leyti sjálfvirk. Byggplönturnar eru ræktaðar í næringarlausn á sérhönnuðu færibandi. Hitastigi, birtu, og rakastigi er stjórnað nákvæmlega til að aðstæður fyrir ræktunina séu sem bestar. Mikla orku þarf til ræktunar byggs í gróðurhúsi og smiðjan notar rafmagn og heitt vatn frá orkuveri Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi.

ORF Líftækni hefur undanfarin ár unnið að þróun á eigin kerfi þar sem bygg er notað til að framleiða sérvirk prótein eins og finnast í mannslíkamanum. Þar á meðal eru svokallaðir vaxtarþættir sem eru mikið notaðir við margvíslegar læknisfræðilegar rannsóknir. Fyrirtækið setti fyrstu vörur sínar á markað í janúar síðastliðnum undir heitinu ISOkineTM. Þar með varð ORF fyrsta fyrirtækið í heiminum til að hefja sölu á slíkum próteinum sem framleidd eru með sameindaræktun í plöntum. Framleiðslan er mun hagkvæmari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum eða spendýrafrumum og mikið öryggi felst í að framleiða slík prótein í plöntum sem ekki geta borið sýkingar í menn.

ORF Líftækni er þegar orðið stærsta fyrirtækið á sínu sviði í Evrópu. Mikil áhersla er nú lögð á markaðs- og sölumál og ORF hyggur á frekari landvinninga fyrir framleiðsluvörur sínar á næstunni, bæði fyrir læknisrannsóknir og lyfjaþróun og eins fyrir snyrtivöruiðnaðinn. Fyrirtækið kynnti vörur sínar nýlega á stórri sýningu snyrtivöruiðnaðarins í Evrópu og vöktu þær mikla athygli og áhuga. Einnig er nú unnið að því að fá vottun frá Evrópska lyfjaeftirlitinu til framleiðslu hráefna í lyfjagerð í Grænu smiðjunni.

VF-myndir/Þorgils – Össur klippir fyrstu öxin af bygguppskeru ORF, Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri stendur honum við hlið. –Séð yfir „akurinn“. Byggplönturnar vaxa á færiböndum og stækka ört á meðan þær færast nær uppskeru.