Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Fyrsta stóra skrefið af mörgum“
Elín Árnadóttir kynnir tillöguna. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 26. febrúar 2015 kl. 15:28

„Fyrsta stóra skrefið af mörgum“

– segir Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, kynnti vinningstillögu að masterplani eða þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll í Flugstöð Leifs Eiríkssonar nú áðan.

Masterplan er sveigjanleg þróunaráætlun sem tekur á öllu svæði og umhverfi flugvallarins, því sem er innan öryggisgirðingar og utan. Masterplan er stjórntæki sem haghafar geta nýtt sér til stefnumótunar og uppbyggingar. Þar eru uppbyggingaráform Keflavíkurflugvallar kortlögð þannig að vel sé farið með fjármagn flugvallarins. Masterplan er þannig leiðarljós fyrir framtíðarskipulag þar sem unnið er flugvellinum í hag í samræmi við umferðar- og farþegaspá.

Í hönnunarsamkeppni um Masterplan Keflavíkurflugvallar var kallað eftir hugmyndum um skipulag flugstöðvarinnar og nærumhverfis, skipulag flugvallarins og umhverfisskýrslu. Sömuleiðis var óskað eftir tillögu að nálgun hvað varðar samráð við hagsmunaaðila en slíkt samráð er afar mikilvægt til þess að endanleg áætlun muni lýsi sameiginlegri framtíðarsýn hagsmunaaðila og flugvallarins sjálfs.

Sú tillaga sem nú liggur fyrir uppfyllti best þær kröfur sem settar voru fram í hverjum flokki og lýsir áhugaverðum hugmyndum sem uppfylla þarfir flugvallarins til framtíðar í takti við þróun í farþegafjölda og umferð.

SJÁ MEIRA NEÐAN MYNDAR



„Tillaga Nordic er vel útfærð og uppfyllir kröfur í þeim þáttum sem settir voru fram í samkeppnisgögnunum. Uppbyggingu flugstöðvar (terminal plan) og landnýtingarplani (land use plan) er skipt niður í uppbyggingaráfanga og á sama tíma er núverandi þjónustustigi viðhaldið. Stækkun flugstöðvarinnar til norðurs opnar möguleika á staðsetningu landganga til austurs og vesturs og stuðlar um leið betri nýting á núverandi flugstöðvarbyggingu. Gert er ráð fyrir lagningu nýrrar norður-suður flugbrautar vestan við flugstöðvarbygginguna.

Tillagan gerir ráð fyrir tveggja hæða umferðarskipulagi norðanmegin við núverandi flugstöð með aðgreiningu komu- og brottfararfarþega. Þessar framkvæmdir er hægt að ráðast í án þess að þær hafi áhrif á starfsemi flugstöðvarinnar.  og opna tækifæri til þess að bæta við rými og auka tekjur til framtíðar.

Tillaga Nordic setur fram hvernig hægt er að fara í gegnum framkvæmdatímabil en um leið viðhalda tekjum  af rekstri í flugstöðinni. Hugsað er fyrir því að nýir tekjumöguleikar opnist í hverjum framkvæmdaáfanga og að tækifæri til tekjuöflunar opnist um leið og afkastageta er aukin.
 
Stækkun flugstöðvar til austurs og vesturs er hægt að vinna að mestu sem „landside“ framkvæmd og því hagkvæmari en ella. Tillagan gerir ráð fyrir góðu flæði bæði með tilliti til brottfarar,komu, - og tengifarþega í gegnum innritun, öryggisleit og verslunar- og þjónustusvæði.

Nordic leggur til að aðstaða fyrir fraktflug og flugeldhús (catering) verði staðsett austan megin, miðja vegu á milli núverandi flugstöðvarbyggingar og háaleitishlaðs. Þessi tillaga er mjög áhugaverð með tilliti til möguleika á frekari nýtingu flughlaða og bygginga við háaleitishlað m.a. fyrir flugafgreiðslu og einkaflug. Aðstaða fyrir afísingu er vel staðsett í tillögunni og þjónustusvæði fyrir flugafgreiðsluaðila er staðsett á Háaleitishlaði en aðstaða fyrir tækjabúnað er nálægt flugstöð. Tillagan inniheldur áhugaverðar hugmyndir um aukna nýtingu á háaleitishlaði til framtíðar.

Nordic leggja fram skýra sýn fyrir þróun Airport City norðan megin við núverandi flugstöð og gera m.a. ráð fyrir byggingu bílastæðahúsa. Tillagan virðist mjög stórtæk við fyrstu sýn en auðvelt er að hugsa hana í áföngum í takt við eftirspurn.

Að lokum þá inniheldur tillaga Nordic heildstæða áætlun í umhverfismálum og bendir á mikilvægi samráðs við hagsmunaaðila á öllum stigum skipulagsgerðarinnar.

Nú er lokið fyrsta stóra skrefinu af mörgum í þessu mikilvæga ferli að klára okkar leiðarljós til framtíðar um áherslur í skipulagsmálum flugvallarins. Nú hefst vinna við að fullvinna þróunaráætlunina með sigurvegara samkeppninnar. Við munum leggja mikla áherslu á gott samráð við hagsmunaaðila og nærsamfélag flugvallarins í þeirri vinnu sem framundan er með Nordic,“ sagði Elín Árnadóttir í ávarpi sem hún flutti þegar tillagan var kynnt.

Valnefnd samanstóð af:
Elínu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Isavia
Þresti V. Söring , framkvæmdastjóra Keflavíkurflugvallar
Guðmundi Daða Rúnarssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
Ásdísi Hlökk, Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar
Kjell-Arne Sakshaug, forstöðumanns skrifstofu þróunar og skipulags á Oslóarflugvelli    

Starfsmaður valnefndar var Pálmi Freyr Randversson, verkefnastjóri uppbyggingar og þróunarmála hjá Isavia.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024