Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 30. maí 2000 kl. 21:29

Fyrsta skóflustunga tekin að fraktmiðstöð Flugleiða

Bygging nýrrar fraktmiðstöðvar Flugleiða á Keflavíkurflugvelli hófst formlega í dag þegar fyrsta skóflustunga vegna framkvæmdanna var tekin. Stefnt er að því að starfsemi í miðstöðinni hefjist vorið 2001. Visir.is greinir frá. Fraktmiðstöðin mun styrkja samkeppnisstöðu Flugleiða á opnum markaði með því að þjóna þörfum ört vaxandi markaðar fyrir flugfrakt auk þess að bæta talsvert vinnuaðstöðu starfsfólks félagsins. Sigurður Friðriksson, starfsaldursforseti starfsmanna í flugvallar- og farþegaþjónustu Flugleiða á Keflavíkurflugvelli, tók fyrstu skóflustunguna. Markaður fyrir flugfrakt hefur margfaldast á síðustu tíu árum og hafa Flugleiðir verið leiðandi í þróun þessa markaðar. Félagið steig nýtt skref um síðustu áramót með stofnun sérstaks dótturfélags, Flugleiða-Fraktar ehf. Félagið hefur sótt fram og vaxið verulega undanfarna mánuði bæði á markaðnum til og frá Íslandi og á markaðnum yfir Norður-Atlantshafi. Ör uppbygging starfsemi í fraktflutningum í millilandaflugi hefur leitt til þess að félagið hefur sprengt af sér aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli. Í nýju fraktmiðstöðinni skapast m.a. tækifæri til að koma upp flokkun hraðsendinga og skapa jafnframt grundvöll fyrir beinni dreifingu þeirra til viðskiptavina. Fraktmiðstöð Flugleiða mun þjóna Flugleiðum-Frakt sem og öðrum farmflytjendum. Verktakafyrirtækið Højgaard & Schultz var valið til að reisa bygginguna að undangengnu alútboði. Í fyrsta áfanga verður reist 5.000 fermetra bygging en á síðari stigum er unnt að stækka fraktmiðstöðina með 4.400 fermetra viðbyggingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024