Fyrsta skóflustunga að stúdentaíbúðum í Reykjanesbæ
Árni Sigfússon bæjarstjóri tók í dag fyrstu skóflustungu að leiguíbúðum námsmanna í Reykjanesbæ.
Leiguíbúðirnar eru ætlaðar nemendum sem stunda nám á framhalds- og háskólastigi í Reykjanesbæ og verða þær staðsettar við lóð Íþróttaakademíunnar sem hefur starfsemi næsta haust.
Fasteignafélagið Þrek ehf. byggir íbúðirnar sem alls verða 75 talsins en gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði byggðar í þremur áföngum.
Fyrsti áfangi verður tilbúinn til afhendingar um næstu áramót. Næsti áfangi verður afhentur haustið 2006 og lokaáfangi haustið 2007.
Íbúðirnar verða 2ja eða 3ja herbergja og allar með sérinngangi. Þær verða í eigu Fasteignafélagsins Þreks ehf., án styrkja eða eignarhlutdeildar opinberra aðila og er þetta fyrsta einkahlutafélagið í þessum rekstri á landinu.
Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar, tólf að tölu verði tilbúnar til útleigu um næstu áramót.
Texti af vefsíðu Reykjanesbæjar VF-myndir Þorgils