Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 18. mars 2004 kl. 10:38

Fyrsta skóflustunga að nýjum grunnskóla á laugardaginn

Ellen Hilda Sigurðardóttir og Óðinn Hrafn Þrastarson, bæði 7 ára og væntanlegir nemendur við nýjan skóla í Innri Njarðvík, Reykjanesbæ, taka fyrstu skóflustungu að byggingunni með aðstoð Árna Sigfússonar, bæjarstjóra og formanns fræðsluráðs, kl. 14, laugardaginn 20. mars.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf., sem Reykjanesbær er aðili að, byggir skólann sem tekur mið af teikningum Heiðarskóla í Reykjanesbæ.  Teikningar eru síðan aðlagaðar hugmyndum um “opinn skóla” þar sem mikið er lagt upp úr einstaklingsmiðuðu námi með opnu rými og samstarfi kennara um tiltekin heimasvæði.

Við undirbúning verksins hefur náðst verulegur árangur í að lækka kostnað við byggingu nýja skólans sé miðað við byggingarkostnað sambærilegs hluta Heiðaskóla þó ekki hafi verið slakað á gæðakröfum vegna verksins.  Þegar hefur verið samið við Reykjanesbæ um hámarksverð byggingarinnar en verði útboð hagstæðari en viðmiðunartölur mun bærinn njóta þess.

Heildarbyggingarkostnaður 1.áfanga er nú áætlaður 578,3 milljónir kr. eða 165.858 kr/m² .  Til samanburðar er uppreiknaður kostnaður vegna byggingar sama stærðarhluta Heiðaskóla á verðlagi dagsins í dag 648,0 milljónir kr.  Áætlaður heildarsparnaður miðað við sambærilegan fullbyggðan skóla er því yfir 110 milljónir kr.

Gert er ráð fyrir að skólastarf hefjist haustið 2005 og verða nemendur um 100 talsins fyrsta árið.  Þeim mun síðar fjölga í 400 þegar skólinn verður kominn í fulla notkun.

Arkitektar:  Arkitektastofa Suðurnesja ehf., Bjarni Marteinsson arkitekt
Verkfræðingar burðarvirkja og lagna:  Tækniþjónusta SÁ ehf.,  Sigurður Ásgrímsson byggingatæknifræðingur
Verkfræðingar raforkuvirkja:  Rafmiðstöðin ehf., Guðmundur Guðbjörnsson rafmagnstæknifræðingur
Verkefnisstjóri: Samúel Guðmundsson byggingatæknifræðingur á Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar ehf.
Daglegt eftirlit: Guðni Þór Gunnarsson á Verkfræðistofu Suðurnesja ehf.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024