Fyrsta ökugerði landsins við Reykjanesbraut
Framkvæmdir við fyrsta ökugerði landsins standa nú yfir við Reykjanesbraut, innan við Grindavíkurgatnamótin. Félagið Ökugerði ehf stendur að framkvæmdinni. Það er í meirihlutaeigu Nesbyggðar ehf en stefnt er að því fá fleiri áhugsama aðila inn í félagið. Fjárfestingin í verkefninu nemur um 650 milljónum króna.
Nú um áramótin tóku gildi lög sem kveða á um að ökunemar fái þjálfun í akstri og umferðaröryggi á sérstöku svæði. Ekkert slíkt svæði er hins vegar til staðar.
Talið er að umferðarslys kosti þjóðarbúið um 50 milljarða á ári sem eru 2,5% af þjóðarframleiðslu.
„Bara með 20% fækkun slysa af því að þjálfa nýja ökumenn værum við að spara 10 milljarða. Reynslan af þessu erlendis sýnir að gerð slíkra svæða skilar sér í mikilli fækkun slysa. Það er búið að tala um það í 40 ár að gera þetta en það hefur aldrei komist jafnlangt og nú,“ segir Ómar Ingason hjá Ökugerði ehf.
Sjá nánar í Víkurfréttum á morgun.