Fyrsta löndun íslensks fiskiskips í Grimsby í tæp 9 ár
Tæp níu ár voru liðin frá því íslenskt fiskiskip landaði síðast í Grimsby þegar Sturla GK 12 seldi afla sinn þar í gær.
Breski sjávarútvegsvefurinn FISHupdate.com segir að hin „óvænta koma“ Sturlu GK 12 hafi vakið nokkra athygli á fiskmarkaðnum í Grimsby enda aflinn búhnykkur fyrir markaðinn til viðbótar gámasendingum frá Íslandi.
Að sögn fréttavefsins voru landanir íslenskra fiskiskipa algengar á sjöunda og áttunda áratugnum en með tilkomu hagkvæmra gámaflutninga lögðust þessar skipakomur smám saman af.
Alls voru 65 tonn seld úr Sturlu GK í gær en 40 tonn verða seld í dag. Skipið er nú á heimleið. Annað skip Þorbjarnar hf. í Grindavík, Ágúst GK 95, er á leið til Grimsby og mun selja þar nk. mánudag. Frá þessu er greint á vef LÍÚ.