Fyrsta loðnan komin til Grindavíkur
Háberg GK 299 lagðist að bryggju í Grindavík í morgun með 1.150 tonn af loðnu og er það fyrsta loðnan sem landað er í Grindavík á þessu ári. Þetta kom fram á heimasíðu Samherja í dag. Loðnan er stór og góð og fer öll í bræðslu. Að sögn Óskars Ævarssonar rekstrarstjóra Samherja í Grindavík er þetta mikið fagnaðarefni eftir einmuna lélegt ár og segir Grindvíkinga vonandi sjá fram á betri tíð.
Hljóðið var gott í Þorsteini Símonarsyni skipstjóra Hábergsins og sagði hann loðnuna hafa veiðst flottroll á Seyðisfjarðardýpi og einungis þurft fjögur hol. Hann sagðist hafa verið 34 tíma að sigla til Grindavíkur frá miðunum. "Við eigum von á að loðnan gangi suður fyrir land og styttist þá tíminn sem fer í heimstímið", sagði Þorsteinn. Hábergið heldur aftur til veiða um leið og lokið hefur verið við löndun.
Högabergið sem Samherji festi kaup á frá Færeyjum í síðustu viku er komið með 1400 tonn á svipuðum slóðum og er von á skipinu til löndunar í Grindavík seinna í vikunni.
Samherji hf. hefur tekið Seley ÞH á leigu og kemur hún aðallega til með að flytja afla frá veiðiskipum í land og einnig að flytja hráefni til bræðslu frá vinnsluskipunum. Seleyjan er í eigu Vísis hf. í Grindavík og ber tæplega 1000 tonn.
VF-myndir/Þorsteinn Kristjánsson