Fyrsta haustlægðin lætur finna fyrir sér
Fyrsta haustlægðin hefur svo sannarlega látið finna fyrir sér á Suðvesturhorni landsins síðustu klukkutíma. Veðurstofan hefur gefið út viðvörun þar sem búist er við suðaustanátt 18-24 metra á sek. Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði í samtali við Víkurfréttir að þessa stundina hefði vind lægt aðeins, en í kvöld mætti búast við suðaustlægum áttum hér á Suðurnesjum. „Hann fer að snúa sér og hallast í vestrið með kvöldinu. Það má gera ráð fyrir meiri hviðum í Reykjavík en á Reykjanesinu,“ segir Hrafn. Veðurstofan gerir ráð fyrir suðaustan 18-23 m/s suðvestantil, en talsvert hægari vindur annars staðar. Rigning eða skúrir, en skýjað með köflum og þurrt að mestu norðaustanlands. Suðvestan og sunnanátt í kvöld, víða 18-23 vestantil á landinu, en annars hægari. Lægir smám saman á morgun, suðvestan 13-18 og skúrir vestantil síðdegis, en hægari og þurrt austanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustantil á landinu.