ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Fréttir

Fyrsta barna- og ungmennaþing Suðurnesjabæjar haldið með glæsibrag
Sunnudagur 25. maí 2025 kl. 06:10

Fyrsta barna- og ungmennaþing Suðurnesjabæjar haldið með glæsibrag

Um fimmtíu börn og ungmenni úr 7.–10. bekk grunnskóla Suðurnesjabæjar tóku þátt í fyrsta barna- og ungmennaþingi sveitarfélagsins sem haldið var þriðjudaginn 13. maí. Það var Ungmennaráð Suðurnesjabæjar sem stóð að þinginu, sem fram fór í þeim tilgangi að efla lýðræðislega þátttöku og borgaravitund ungs fólks.

Á þinginu fengu þátttakendur tækifæri til að ræða málefni sem þau telja skipta máli í daglegu lífi og samfélagi. Unnið var í sjö umræðuflokkum: lýðheilsa og andleg heilsa, umhverfi og samgöngur, íþróttir og tómstundir, netið og samfélagsmiðlar, skólinn, menning og viðburðir og samfélagið.

Innan hópanna þróaðist málefnaleg og öflug umræða þar sem fjölmargar hugmyndir og tillögur komu fram. Ungmennaráðið leggur áherslu á að skapa formlegan vettvang þar sem raddir barna og ungmenna fá að heyrast og hafa áhrif á ákvarðanir sem snúa að þeirra lífi og velferð.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Þetta er mikilvægt skref í að efla samráð og sýna ungu fólki að það hefur eitthvað að segja í samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu frá Ungmennaráði Suðurnesjabæjar.

Niðurstöður þingsins verða teknar saman á næstu vikum og kynntar bæði innan skólasamfélagsins og fyrir bæjaryfirvöldum. Stefnt er að því að tillögurnar nýtist við stefnumótun í málum sem varða börn og ungmenni í sveitarfélaginu.