Fyrsta barn ársins fæddist í heimahúsi í Sandgerði
Fyrsta barn ársins sem fæddist á Suðurnesjum er stúlkubarn sem kom í heiminn rétt eftir miðnætti 4. janúar. Fæðingin var í heimahúsi í Sandgerði og viðstödd hana var m.a. amma litlu dömunnar sem var sjálf fyrsta barn ársins á Suðurnesjum fyrir 47 árum síðan.
Foreldrarnir eru þau Ósk Matthildur Arnarsdóttir og Ási Þórhallsson. Litla daman var 51 sm., 4080 gr. og sextán merkur – en hún var jafnframt fyrsta barn ársins á landinu sem fæddist í heimahúsi. Svo skemmtilega vill til að síðasta barn ársins á landinu sem fæddist í heimahúsi var einnig á Suðurnesjum, drengur sem fæddist á gamlársdag.
„Þetta var bara ólýsanlegt og gekk mjög vel. Við erum í skýjunum,“ sagði Ási Þórhallsson, faðir stúlkunnar í stuttu spjalli við Víkurfréttir.