Fyrsta bakaríið opnað í Garðinum
Á dögunum opnaði fyrsta bakaríið sem hefur verið starfrækt í Garðinum. Það eru hjónin Sigríður Kristín Eysteinsdóttir og Guðmundur Rúnar Lúðvíksson sem opnuðu bakaríið og smurbrauðsstofuna Stúdeó. Þau höfðu áður verið með slíkt bakarí í Reykjavík en þau fluttu alla starfsemi sína í Garðinn.
„Við fluttum hingað í maí og einn sunnudagsmorguninn ætlaði ég út í bakarí en mér til mikillar undrunar var ekkert bakarí til í Garðinum,“ sagði Sigríður og bætti því við að eftir þessa uppgötvun ákváðu þau að opna bakarí í Garðinum. „Við höfum fengið frábærar viðtökur og í raun áttum ekki við ekki von á þessari sprengju,“ sagði Kristín og bætir því við að Garðbúar taka greinilega vel í það að bakarí sé á svæðinu.
Bakaríið er opið frá 9-18 alla daga en þau búa einnig til pizzur og er ofninn heitur alla daga frá 16-20.