Fyrrverandi starfsmenn VL: Ríkinu bar ekki skylda til að gera starfslokasamninga
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir það ekki hlutverk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar að koma að gerð starfslokasamninga við fyrrverandi starfsmenn Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Hún segir ríkið eða íslensku ríkisstjórnina ekki hafa verið vinnuveitanda fyrrverandi íslenskra starfsmanna VL og því hafi ríkinu ekki borið skylda til að standa að gerð starfslokasamninga við þá, hvorki fyrr né nú.
Þetta kom fram í svörum hennar við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar á Alþingi í gær þess efnis hvort ráðherranum fyndist koma til greina að Þróunarfélagið kæmi að gerð slíkra starfslokasamninga.
Jón sagði vitað að utanríkisráðuneyti íslenska ríkisins hefði alltaf í raun borið vinnuveitendaábyrgðina gagnvart starfsmönnunum.
„Við þekkjum að þegar varnarliðið hefur þverskallast við að greiða samkvæmt samningum eða að öðru leyti brotið á kjörum starfsmanna hefur utanríkisráðuneytinu verið stefnt. Fjöldi dómsmála vitnar um það að þegar upp er staðið er það utanríkisráðuneytið eða íslenska ríkið sem ber ábyrgðina gagnvart íslenskum starfsmönnum varnarliðsins,“ sagði Jón Gunnarsson. Þingmennirnar Björgin G. Sigurðsson og Magnús Þór Hafsteinsson tóku undir með Jóni.
„Íslenskir starfsmenn varnarliðsins voru ráðnir til starfa samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins frá árinu 1951. Varnarliðið var ekki íslensk ríkisstofnun og íslenskir starfsmenn þess töldust ekki til ríkisstarfsmanna. Þetta vita hv. þingmenn ákaflega vel,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir.
„Ég held að íslenska ríkið skuldi þessum starfsmönnum, sem hafa eytt allri starfsævi sinni þarna upp frá, sómasamlegri starfslok en bandaríski herinn var tilbúinn til að standa að,“ sagði Jón.
Mynd: Frá fundi VL-starfsmanna í vor.