Fyrrverandi formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum kærður til lögreglu
Fyrrverandi formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum hefur verið kærður til lögreglu en hann er grunaður um að hafa dregið sér fé úr sjóðum félagsins. Frá þessu er greint á vef RUV í dag.
Sigurður Ingi Kristófersson, núverandi formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, staðfesti í samtali við Víkurfréttir nú áðan að málið hafi verið kært til lögreglu. Hann gat ekki staðfest um hvaða fjárhæðir væri að ræða en farið verður yfir fjármál Þroskahjálpar á Suðurnesjum á fundi nú í mánuðinum. Sigurður sagði að formaðurinn fyrrverandi hafi endurgreitt það fé sem sem Þroskahjálp á Suðurnesjum telji að vanti í sjóði félagsins. Það sé hins vegar lögreglu að rannsaka málið og í tengslum við þá rannsókn verður farið yfir fjármál félagsins.
Meint brot fyrrverandi formanns áttu sér stað eftir að formennsku hans lauk fyrir félagið en hann hafði áfram aðgang að sjóðum félagsins. Sigurður Ingi Kristófersson, núverandi formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, sagði að málið hafi verið kært til lögreglu fyrir um mánuði síðan en hann gæti ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.