Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna í Keflavík
Dan Quayle, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, gisti í Keflavík aðfararnótt sl. laugardags. Hann kom hingað með einkaþotu og var á leið vestur um haf til Bandaríkjanna. Dan Quayle gisti á Hótel Keflavík og lét vel af dvöl sinni og sagðist vilja koma aftur til Íslands til að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða.
Katrín Helga, dóttir Steinþórs hótelstjóra, tók á móti Dan Quayle þegar hann kom á hótelið. Hann hafði bókað gistinguna á netinu, en Katrín hafði flett nafninu upp á netinu til að fullvissa sig um hver þarna væri á ferð. Þegar Dan Quayle mætti svo á hótelið var ljóst að þetta var fyrrum varaforseti Bandaríkjanna. Hann er 44. varaforsetinn og gegndi embættinu á árunum 1989-1993 í forsetatíð Georg Bush eldri.
Dan Quayle fór frá Keflavík snemma á laugardagsmorgun en vél hans beið á Keflavíkurflugvelli meðan varaforsetinn fyrrverandi gisti á Hótel Keflavík.
.