Fyrrum stofnfjáreigendur SpKef lýsa kröfum í þrotabú sjóðsins
Fyrrum stofnfjáreigendur Sparisjóðsins í Keflavík hafa ákveðið að lýsa kröfum í þrotabú sjóðsins. Þetta var ákveðið á fundi þeirra nýlega þar sem undirbúningsstjórn var kosin. Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú SpKef rennur út 5. desember nk.
Undirbúningsstjórnin hefur samið samþykktir fyrir samtökin og kröfulýsingu með aðstoð lögmanns, segir í fréttatilkynningu frá félaginu í Víkurfréttum í dag. Í henni eru stofnfjáreigendur hvattir til þess að gera kröfu í þrotabú Sparisjóðsins.
„Það er það fyrsta sem stofnfjáreigendur ættu að gera, sem er þá undanfari þess að krafist verði rannsóknar á því hvers vegna Sparisjóðurinn fór á hausinn,“ segir þar ennfremur.
Félag stofnfjáreigenda í SpKef hefur opnað heimasíðuna spkefstofnfe.is þar sem hægt verður að nálgast kröfulýsinguna. Boðið verður upp á aðstoð við að fylla hana út.
VFmynd/elg - Á fjölmennum fundi fyrrum stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík, sem haldinn var í sal FS í október síðastliðnum.