Fyrrum skólastjóri í Grindavík borinn þungum sökum
Á starfsmannafundi í Grunnskóla Grindavíkur fyrir skömmu var starfsfólki tilkynnt að bæjaryfirvöld hafi boðið Páli Leó Jónssyni skólastjóra starfslokasamning sem tæki gildi hið fyrsta. Skólastjóri telur sér ekki fært annað en að ganga að því samkomulagi.
Pálmi Ingólfsson gegnir starfi skólastjóra þar til málin skýrast frekar.
Hallfríður Hólmgeirsdóttir, móðir nemanda í Grunnskólanum í Grindavík, segist hafa barist fyrir því í 3 ár að Páll Leó yrði látinn fara í samtali við vefsíðuna Pressuna. í gær.
Hún segir að í febrúar 2009, þegar sonur hennar var 9 ára gamall, hafi hann komið heim með áverka á bringunni. Hún fékk áverkavottorð hjá lækni þar sem sagði að áverkinn hafi stafað af snöggu og þungu höggi í bringubeinið. Málið var kært til lögreglu sem vildi ekki aðhafast í málinu. Drengurinn hélt því fram að Páll Leó hafi sparkað í bringuna á sér, en það hefur aldrei sannast.
„Hann hefur brotið öll lög gagnvart syni okkar það hafa verið kærur, úrskurðir og ég hitti meira að segja menntamálaráðherra í eigin persónu. Ég hef barist í þessu í þrjú ár og fengið aðra foreldra í lið með mér. Ég veit ekki af hverju hann fer núna, en ætli mælirinn hafi ekki verið orðinn fullur. Það hefur mikið gengið á í skólanum,“ sagði Hallfríður við Pressuna.
Stjórnendur skólans hvetja alla í skólaumhverfinu að beina sjónum sínum að öllu því jákvæða sem verið er að gera í skólanum og láta þessar erfiðu aðstæður hafa sem minnst áhrif á það sem skiptir mestu máli þ.e. nemendurna.