Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn
Varasamt að vera á ferðinni á Sundhnúksgígaröðinni
Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum, en hættumatið nú endurspeglar hættur í tengslum auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki mikil skjálftavirkni fylgja þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar. Nýtt hættumat gildir til 17. maí að öllu óbreyttu.
Tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:
Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.
Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mikilvægt er að benda á að fyrirvarinn getur orðið mjög stuttur, innan við hálftími, jafnvel enginn.
Þó svo að sviðsmyndirnar hér að ofan séu taldar þær líklegustu er áfram grannt fylgst með hvort að kvika sé að leita annað en yfir í Sundhnúksgígaröðina. Horft er til svæðanna norðan Stóra-Skógfells og sunnan Hagafells og Þorbjarnar.
Ef kvika færi að brjóta sér leið til yfirborðs utan þeirra svæða sem gosið hefur á nú þegar, væri fyrirvarinn á slíkum jarðhræringum meiri og kæmi fram í mun kraftmeiri og ákafari skjálftavirkni en verið hefur í aðdraganda síðustu gosa, segir á vef Veðurstofu Íslands.