Fyrirtæki og götur loka vegna kvikmyndatöku í Reykjanesbæ
Kvikmyndatökur verða í og við Hafnargötu í Keflavík þann 28. nóvember til 3. desember nk. Hluti af tökum á fjórðu sjónvarpsþáttaröð lögregluþáttanna True Detective fara þá fram við Hafnargötuna og einnig við Sunnubraut í Keflavík og við Brekkustíg og Þórustíg í Njarðvík. Töluvert umfang mun fylgja verkinu og vegna þess þarf bæði að loka götum í bænum og einnig þurfa nokkur fyrirtæki við Hafnargötu að loka tímabundið vegna verkefnisins.
Ránargata í Keflavík verður lokuð frá 26. nóvember til og með 2. desember. Hafnargata, frá Sambíóinu að Omnis verður lokuð frá 28. nóvember til og með 2. desember, frá kl. 15:00 til 03:00. Þann 1. desember verður lokað frá kl. 07:00 – 03:00.
Sunnubraut verður lokuð 6. og 7. desember, frá Skólavegi að Sunnubraut 12. Brekkustígur verður lokaður 8. og 9. desember, frá Hafnarbraut að Brekkustíg 15. Þórustígur verður lokaður 8. og 9. desember, frá Brekkustíg að Þórustíg 24.
Vegna kvikmyndatöku verða nokkur fyrirtæki við Hafnargötu lokuð, frá einum degi og upp í nokkra daga. Paddy´s Bar er lokaður lengst allra fyrirtækja. Barnum var lokað sl. mánudag og verður lokaður til og með 8. desember. Aðrar lokanir eru mislangar en sjá má allt um þær í auglýsingu frá True North á síðu 7 í Víkurfréttum.
Veðurskilyrði geta þó haft áhrif og yrðu þær breytingar kynntar á vef Reykjanesbæjar, segir í tilkynningu True North.